Hraundrangar í Öxnadal

Fyrir þá sem láta sig málið varða

Fáðu þér síma sem skilur þig

Íslenskt notendaviðmót

Allir símar og spjaldtölvur frá Samsung eru með íslensku notendaviðmóti. Það þýðir ekki aðeins að hægt sé að skrifa séríslenska stafi á borð við þ,æ og ö á lyklaborð tækisins heldur er allt viðmót, tilkynningar og leiðbeiningar símans á íslensku. Ennfremur er hægt að tala við tækin í stað þess að nota lyklaborð til að skrifa skilaboð í hvaða smáforriti sem er. Íslenska skiptir máli.

Ekki bara "ð"

Samsung tæki eru ekki aðeins með íslensku notendaviðmóti heldur skilja tækin einnig mælt íslenskt mál sem gerir að mögulegt að breyta tali í texta. Um er að ræða byltingu í máltækni sem á erindi við alla sem láta sig málið varða .

Í myndbandinu hér að neðan er farið yfir hvernig stillingar símans þurfa að vera svo þetta virki.

Fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er haldinn á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar sem kalla má fyrsta nútímaskáld Íslendingaskáldið sem fann fegurð íslenskrar náttúru og sameinaði íslenska ljóðhefð og erlend kveðskaparáhrif og einn hefur verið kallaður listaskáldið góða.

Miklar andstæður voru í lífi Jónasar Hallgrímssonar, föðurlausa drengsins norðan úr Öxnadal sem lifði meginhluta fullorðinsára sinna með erlendri þjóð, lífsnautnamanninn og hinn einmana ferðalang, gamansama æringjann og þunglynda manninn, trúmanninn og náttúrufræðinginn.

Staðalmyndir af Jónasi Hallgrímssyni

[f 16. nóvember 1807 – d 26. maí 1845]

Í vitund þjóðarinnar hafa einkum verið dregnar upp af honum fjórar myndir. Segja má að allt séu þetta staðalmyndir, stereótýpur, og þótt þær séu ólíkar, renna þær stoðum undir þá skoðun, að maðurinn Jónas Hallgrímsson hafi horfið í skugga staðalmyndanna. Fyrirferðarmest er helgimyndin, mynd af „listaskáldinu góða”, „óskabarni Íslands”, mynd af stjórnmálamanni sem barðist fyrir endurreisn Alþingis á Þingvöllum, endurreisn íslenskrar tungu og farsæld þjóðarinnar undir kjörorðunum „nytsemi, fegurð, sannleikur og skynsemi“. Í öðru lagi er myndin af náttúrufræðingnum sem ferðaðist um landið með „hundi og hesti” við erfiðar aðstæður og mætti víða litlum skilningi við rannsóknir á gæðum landsins, sem áttu að verða undirstaða að aukinni hagsæld þjóðarinnar. Í þriðja lagi er mynd af „drykkfelldum útigangsmanni á biluðum skóm á flórhellunum í Kaupinhafn“, eins og Halldór Laxness kemst að orði í Alþýðubókinni. Sú mynd er að sönnu byggð á sögnum samtíðarmanna Jónasar, en er engu að síður villandi – þótt hún yrði lífseig með þjóðinni. Í fjórða lagi er mynd af föðurlausum dreng sem átti engan að nema elskuríka móður, sem harmaði snöggan dauða manns síns, og systur sem drengurinn dáði alla ævi.

Orðasmiður - lifandi tungumál

Ekki gera allir sér grein fyrir því hversu góður orðasmiður Jónas var og enn færri minnast þess að Jónas skrifaði fleira en ljóð. Hann var góður þýðandi og skrifaði einnig talsvert um fræðasvið sitt náttúrufræðina. Virðing hans fyrir tungumálinu, málkennd hans og næmi fyrir blæbrigðum tungunnar gerðu honum kleift að tjá hugsanir sínar og annarra í þann búning að nýyrði yfir hluti eða hugmyndir, sem áður áttu sér ekki samsvaranir á íslensku, og ný orð og nýjar samsetningar í ljóðum og lausu máli virðast gamalkunn og eins og hluti af grunnorðaforða málsins.

Ljóðskáldið Jónas

Það sem einkennir ljóð Jónasar er þýðleiki og ljóðræn fegurð. Sagt er að Jónas hafi ort fegursta ástarljóð á íslensku, ljóðið Ferðalok, sem lýkur þannig:

Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg.
En anda sem unnast
fær aldregi
eilífð að skilið.

Í ljóðunum sínum notar Jónas ný orð – nýyrði – sem lýsa vel viðfangesefninu: ástarblíður, blástirndur, bunulækur, dauðadjúp, fífilbrekka, fjörgjafarljós, foldarskart, grasahnoss, grátþögull, heldimmur, himinbjartur, hjartavörður, hyggjuþungur, jökulskalli, klógulur, silfurglitaður, smáragrund, sólroðinn, svanahljómur, vinarbrjóst og vonarstund.

Kvæðið Gunnarshólmi má kalla stærsta málverk íslenskrar listasögu þar sem skáldið beitir aðferðum sem minna á kvikmyndagerð samtímans og fer um slóðir Njáls sögu í leiftursýn og notar klippingar, stundum úr háu lofti og stundum niður við jörð og málar landið og náttúru þess litríkum myndum. Fyrstu ljóðlínur Gunnarshólma eru ér að neðan::

Skein yfir landi sól á sumarvegi
og silfurbláan Eyjafjallatind
gullrauðum loga glæsti seint á degi.
Við austur gnæfir sú hin mikla mynd
hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar
í himinblámans fagurtæru lind.
Beljandi foss við hamrabúann hjalar
á hengiflugi undir jökulrótum
þar sem að gullið geyma Frosti og Fjalar.