Jónas Hallgrímsson
Dagur íslenskrar tungu er haldinn á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar sem kalla má fyrsta nútímaskáld Íslendinga, skáldið sem fann fegurð íslenskrar náttúru og sameinaði íslenska ljóðhefð og erlend kveðskaparáhrif og einn hefur verið kallaður listaskáldið góða.
Miklar andstæður voru í lífi Jónasar Hallgrímssonar, föðurlausa drengsins norðan úr Öxnadal sem lifði meginhluta fullorðinsára sinna með erlendri þjóð, lífsnautnamanninn og hinn einmana ferðalang, gamansama æringjann og þunglynda manninn, trúmanninn og náttúrufræðinginn.
Í vitund þjóðarinnar hafa einkum verið dregnar upp af honum fjórar myndir. Segja má að allt séu þetta staðalmyndir, stereótýpur, og þótt þær séu ólíkar, renna þær stoðum undir þá skoðun, að maðurinn Jónas Hallgrímsson hafi horfið í skugga staðalmyndanna. Fyrirferðarmest er helgimyndin, mynd af „listaskáldinu góða”, „óskabarni Íslands”, mynd af stjórnmálamanni sem barðist fyrir endurreisn Alþingis á Þingvöllum, endurreisn íslenskrar tungu og farsæld þjóðarinnar undir kjörorðunum „nytsemi, fegurð, sannleikur og skynsemi“. Í öðru lagi er myndin af náttúrufræðingnum sem ferðaðist um landið með „hundi og hesti” við erfiðar aðstæður og mætti víða litlum skilningi við rannsóknir á gæðum landsins, sem áttu að verða undirstaða að aukinni hagsæld þjóðarinnar. Í þriðja lagi er mynd af „drykkfelldum útigangsmanni á biluðum skóm á flórhellunum í Kaupinhafn“, eins og Halldór Laxness kemst að orði í Alþýðubókinni. Sú mynd er að sönnu byggð á sögnum samtíðarmanna Jónasar, en er engu að síður villandi – þótt hún yrði lífseig með þjóðinni. Í fjórða lagi er mynd af föðurlausum dreng sem átti engan að nema elskuríka móður, sem harmaði snöggan dauða manns síns, og systur sem drengurinn dáði alla ævi.